11.7.2008 | 08:01
11 júlí 1978.
Var ég staddur um borð í Hólmanesi SU-1 og var að gera að fiski þegar kallað var í kallkerfi skipsins og ég beðin um að koma upp í stýrihús. Vissi ég nánast hvað var að ske þegar mér var rétt talstöðvartólið. Móðir mín var á línunni og sagði mér að ég væri búin að eignast dóttur. Finnst mér eins og þetta hafi gerst í gær en nú eru 30 ár síðan, kom ég skælbrosandi niður á millidekk og karlarnir spurðu, hvort átti hún, og ég sagði þeim það og hrópað var húrra og Már Hólm 2 stýrimaður stjórnaði fögnuðinum. Á þessum árum var lítið verið að spá í að vera viðstaddur fæðingu barna held ég, allavega ekki eins algengt og í dag, en einhvernvegin fannst mér samt að vera svona víðsfjarri frá konuninni á þessari stundu frekar óþægilegt en ég var náttúrulega að safna mér fyrir veturinn en ég var að fara í 2 bekk í Stýrimannaskólanum. Þetta kom ekki fyrir aftur því þegar strákarnir mínir komu í heiminn var ég viðstaddur. En viti menn daginn eftir fæðingu Ernu minnar var enn og aftur verið í aðgerð á fiski, þá verður nýkrýndi faðirinn fyrir því óláni (láni) að skera næstum af sér einn fingur, daginn eftir þegar í land var komið var puttinn bróderaður á og drengnum sagt að taka sér tveggja vikna frí. Þá var ekkert annað að gera en að drífa sig upp í flugvél og heimsækja þær mæðgur til Rvk og fylgja þeim svo heim til Eski. Þegar á fæðingardeildina var komið blasti við mér sjón sem ég gleymi aldrei, lítil falleg dúkka með kolsvart hár. Dúkka þessi átti eftir að veita mér mikla gleði sem barn og var ótrúlega skemmtileg og er enn. Hún er enn jafn falleg en hefur aðeins elst. Nú ætla ég að leifa mér að kalla hana konu og þessi kona er ein mín besta vinkona og tölum við saman minnst einu sinni á dag en oftast tvisvar. og er þá sama hvort ég er á sjó eða i landi.Varð nú að skella einni mynda af þessari elsku hér og litla augasteininum hennar Grétari Berg.
Og aðeins að mínum ferðum, erum nú á landleið með fullfermi að síld og makríl um 2350 tonn sem við fengum í partroll með Aðalsteini Jónssyni SU og er þetta mín og okkar hér um borð frumraun á því sviði, og ekki verður annað sagt að túrinn gekk vel hjá okkur báðum og vonumst við til að vera með um 120-130 milj króna aflaverðmæti efir vikuna á bæði skipin sem telst víst dágott. Segi aðeins frá þessum veiðum síðar á blogginu.
30 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þessa fallegu lesningu pabbi minn
Erna (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 11:43
Hæ Grétar ,
Til hamingju með dóttir okkar ,frumburðinn,þetta var mjög fallegt hjá þér,ég get ekki neitað því að þetta rifjaði upp þennan dag fyrir 30.árum og það féllu nokkur tár .
Bið að heilsa Lilja.
Lilja Eðvarðsdóttir (IP-tala skráð) 11.7.2008 kl. 12:27
Innilega til hamingju með einkadótturina - en mikið er nú ferlegt hvað hún er að ná þér Grétar minn Annar er það nú satt sem þú segir um hana Ernu, hún er ferlega skemmtileg, ekki langt að sækja það kannski....
Frábært að það veiðist svona vel og til lukku með vel lukkaða tilraunastarfsemi......
Bjarney Hallgrímsdóttir, 11.7.2008 kl. 21:28
Hjartanlega til hamingju með þetta fallega og vel heppnaða afsprengi þitt, og litla guttann hennar. Þú ert lukkunnar pamfíll!
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 11.7.2008 kl. 21:42
Virkilega falleg lesning, til hamingju með stelpuna þína.
Sóley Valdimarsdóttir, 12.7.2008 kl. 12:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.