17.10.2008 | 13:35
Eitt ár er liðið
Eða næst um því síðan ég byrjaði með þessa síðu, ekki veit ég hver vegna ég byrjaði, ég bara fór að prufa. Er nú ekki sá duglegasti við að blogga en set þó inn eina og eina færslu. En núna eru liðin 3 vikur frá þeirri síðustu hjá mér. Það hefði nú svosem verið hægt að segja margt og mikið upp á síðkastið en það eru nógir um það og læt ég mér nægja að lesa og hlusta á skoðanir annara um þann hrylling sem á gengur í þjóðfélaginu okkar. En nú eru 2 vikur í að ár sé liðið frá fyrsta blogginu og ég er bara sáttur við að hafa fengið 67000 flettingar á síðuna á þeim tíma. Gaman hefur verið að hitta hér fyrir gamla Eskfirðinga og vini sem voru manni næstum gleymdir, sérstakleg hefur verið gaman að rifja upp kynni við Dunna Ölvers í Noregi og þær vinkonur Unni og Guðný Önnu. En annars bara gaman að lesa blogg margra hér og les reglulega blogg bloggvinanna þó ég sé latur við að kommenta.
Og svo aðeins að mínum ferðum síðustu daga. Eftir að hafa dvalið í Rvk í nokkra daga við að ná í skipið og koma því heim var strax haldið til veiða á síld. Endað var við norsku landhelgina áður en lagt var af stað heim á leið með næstum fullan bát í gærmorgun eða 2300 tonn. Veiðarnar gengu sæmilega en þó fór alltaf svolítill tími í að leita, það var ekki mikil síld á svæðinu. Verðum heima í kvöld á Eskifirði. Það skyggði þó á veiðiferðina, að hjá okkur slasaðist maður og þurfti að fá þyrlu til að sækja hann frá Noregi. Liggur hann nú á sjúkrahúsi í Bodö en er á góðum batavegi og kemur heim eftir helgi. Það kom vel í ljós núna hvað gott er að hafa alla þá tækni sem boðið er upp á, að geta verið í sambandi við lækna og hringt strax í þá þegar svona slys verða. Og get ég sagt frá því að það liðu ekki nema 6 klt frá því að ákveðið var að fá þyrluna frá Noregi þar til að hún var komin til okkar, en við vorum staddir 260 sml norð vestur af Bodö en þaðan kom þyrlan.
33 dagar til jóla
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 177421
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Velkomin aftur í bloggheima kratakóngur og gott að heyra að slasaði hásetinn þinn er á batavegi - alltaf bagalegt þegar menn veikjast/slasast út á sjó og oft langt í land en guði sé lof fyrir björgunarþyrlunar...
Já og velkomin heim - sennilega lagstur að bryggju þegar þetta er skrifað...
Bjarney Hallgrímsdóttir, 17.10.2008 kl. 22:53
Til hamingju með árs afmælið, kæri vin og sveitungi! Haltu ótrauður áfram. Það gefur mér mikið að fylgjast með þér, ekki síst á miðunum. Og myndirnar þínar eru eins og vítamínsprauta fyrir fyrrum fjarðarkonu sem er komin í miðborgarReykjavíkurysogþysumhverfið og hugsar títt til heimahaganna.
Góðar batakveðjur til áhafnarmeðlimsins!
PS: Vantar ykkur nokkuð góðan kokk (kvenkyns, frá Eskifirði, voðalega pjattrófu, frábæran kokk, óljóst með sjóveikisstuðul....)...? Bara spyr. Unna var háseti í eina tíð, en ég hef aldrei verið til sjós...
Guðný Anna Arnþórsdóttir, 17.10.2008 kl. 22:56
Grétar, það hefur gaman að fylgjast með þér og þínum síðasta árið. Haltu þessu áfram. - Kveðja, Halli
Haraldur Bjarnason, 18.10.2008 kl. 11:32
Til hamingju með afmælið vinur. Síðan eldist vel.
Dunni, 18.10.2008 kl. 14:40
Innlitskvitt og knús til þín og þinna.
Sóley Valdimarsdóttir, 18.10.2008 kl. 14:54
Takk öll, reyni að pára eitthvað þegar ég nenni, en þetta með kokk Guðný er nú með kokk sem er búinn að vera með mér í næstum 20 ár það hefur samt komið fyrir að konur hafi leyst af sem kokkar og það hefur sko ekkert verið hægt að kvarta undan því haf ávalt staðið sig eins og hetjur.
Bestu kveðjur til ykkar allra
Grétar Rögnvarsson, 20.10.2008 kl. 13:37
Til hamingju með síðuna. Ég segi eins og þú, það er einstakt að hafa náð sambandi eftir öll þessi ár. Frábært hve tæknin gefur okkur margt og eykur öryggi ykkar á sjónum. Sjómenn eru heimsins hetjur í mínum augum, það máttu vita.
Ég svaraði þér á síðuna mína, en sé að skynsamlegra er að gera það hér svo, copy / paste:
Ég held að ég hafi engum sagt þetta leyndarmál, gæti þó verið að ég hafi deilt því með Rósu Þóru. En þú varst svo fallegt barn Grétar og virðist sannarlega halda þeirri nafnbót þó barnið sé horfið.
Já. Ég var á sjó eitt sumar, á handfærum og reri á Flákann frá Ólafsvík. Við keyptum 6 tonna frambyggða, fallega trillu og þetta var yndislegt sumar. Auðvitað var þetta lúxus. Maður þurfti ekki að sækja ef veður voru tvísýn en naut alls þess besta sem aðeins finnst á hafi úti. Ég man aldrei eftir því að t.d. hafi mér eitthvað þótt athugavert klósettleysið, þetta var bara eitt allsherjar ævintýri. Þetta sumar er eitt það yndislegasta í minningunni. Einu sinni ætlaði ég mér að komast á togara frá Eskifirði en af því varð ekki. Ég ræddi við einhvern en möguleikarnir voru taldir litlir svo ég sótti þá um aðra vinnu. Ég væri alveg til í nokkra túra með ykkur Guðný Önnu.
Já. Og nú eru erfiðir tímar. Gott að vera ekki of bundinn efnislegum gæðum. A.m.k. mikilvægt að viðurkenna hve litlu þau skipta í raun í þessu lífi. Mest um vert að komast andlega heill út úr þessu öllu, eða hvað?
Þakka þér svo fyrir greiðsluna fyrir bækurnar sem mér barst í dag.
Fallegar kveðjur í bæinn og austur.
Unnur Sólrún (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 20:40
Það er gaman að þessu Grétar og viss er ég um það, að bloggið þitt á eftir að leiða okkur saman þó síðar verði, eftir einhver 20-30 ár. Hafðu það sem best og hikaðu ekki við að kíkja í bæinn ef þú ert "á svæðinu".
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 25.10.2008 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.