Grein í Morgunblaðinu í dag.

Fyrningarleiðin kemur niður á sjómönnum Sameiginlegir hagsmunir sjómanna og útgerðarmanna hafa sennilega aldrei verið jafn rækilega undirstrikaðir og nú þegar sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir þeirri ógn sem stafar af þeirri áætlun stjórnvalda að hefja fyrningu aflaheimilda í haust. Þessar hugmyndir koma til með að bitna á sjómönnum, sem hafa valið sér þennan starfsvettvang til framtíðar, launum þeirra og þar með afkomu fjölskyldna þeirra.Sjómenn sem starfa hjá íslenskum útgerðum eru í flestum tilfellum búnir að starfa lengi hjá sömu útgerð og hafa þar með tekið þátt í veiðum til margra ára innan sömu útgerðar. Í sumum tilfellum hafa sjómenn og útgerðir í sameiningu tekið þátt í að afla þess kvóta sem er oftast vistaður á því skipi, sem viðkomandi sjómaður starfar á, þó möguleiki sé á hagræðingu innan útgerðar. Tökum sjálfan mig sem dæmi. Ég hef starfað á sama skipinu, Jóni Kjartanssyni SU 111 hjá Eskju hf., með nánast sama mannskap í 21 ár. Við tókum þátt í frumkvöðlastarfi á veiðum á norsk-íslenskri síld, kolmunna og nú makríl. Oft hefur þetta verið gert við erfiðar aðstæður og verið stíft sótt til að afla okkur veiðireynslu. Ef við hefðum ekki sótt, við erfiðar aðstæður, í kolmunnann t.d. vestur af Írlandi ættum við lítinn kvóta í dag. Það gleymist oft í þessu samhengi að veiðireynsla okkar er um leið veiðireynsla Íslands. Á það reynir í milliríkjasamningum um skiptingu veiðiheimilda úr deilistofnum sem flakka um allan sjó. Það verður engum til góðs þegar upp er staðið ef á að fara að taka kvóta af þeim sem starfa við sjávarútveginn í dag.  Þeir einu sem ég hef heyrt mæla þessu bót er menn sem vilja komast inn í útgerð enn eina ferðina. Þessir sömu menn hafa í sumum tilvikum selt sig út úr aflamarkskerfinu mörgum sinnum en komist jafnharðan inn bakdyramegin. Það geta varla talist góð meðmæli með þessum hugmyndum.Og hver eru svo rökin fyrir fyrningu? Engin að því er virðist. Allt er þetta gert að lítt eða óhugsuðu máli, bara til að koma til móts við háværar raddir fólks, sem fæst hefur nennt að hafa fyrir því að setja sig inn í málefni sjávarútvegsins. Fyrningarleiðin er öllum til tjóns. Hún elur á ótta hjá þeim sem við sjávarútveginn starfa og á eftir að stöðva alla framþróun í atvinnugreininni.

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Sameiginlegir hagsmunir sjómanna og útgerðarmanna! Ég vil ekki að hagsmunasamtök og klíkur taki völdin í þessu landi.

Það er fyrir löngu búið að gera sjómennsku að verkamannastarfi og bara rekið einsog hverjar aðrar þrælabúðir og á ekkert skylt við rómantíkina frá síldarárum eða trilluútgerð. Rómantik sem á sér sínar dökku hliðar

Reynsla í veiðum skiptir eigendur kvótanna engu máli heldur hversu hratt og ódýrt hægt er að ná í veiðina og selja eigin fyrirtækjum á gjafverði innan ESB og síðan áfram á almennum markaði og þar með stolið amk 50% af gjaldeyri þjóðarinnar sem okkur sárvantar. Það verður að tjakka niður á jörðina afæturnar.

Ef ég hef orðið fyrir vonbrigðum með nokkuð í íslensku þjóðfélagi eru það útgerðarmenn (og sjómenn eru aumingjar að sitja undir þessu arðræningjapakki og væla með þeim og alveg sérstaklega núna.) Það hefði átt að setja allt  í gjaldþrot 2008 og stokka upp í kerfinu strax. 

Auðvitað átti taka allan kvóta af þeim og setja í sjálfstætt markaðsuppboð og fá þannig raunverð fyrir veiðina. Í staðinn á hækka skatta almennings svo útgerðin geti selt afla fyrir gjaldeyrir sem hún stendur ekki skil á. 

Þetta er sjálfhverf rök hjá ykkur með aflareynsluna. Gott að þið bjargið ykkur en það er vegna þesss að ykkur vantar kvóta yfirleitt.  Það er löngu liðin tíð að "þjóðin eigi eitthvað inni hjá sjómönnum" ekkert frekar en hún á inni hjá öllum öðrum sístarfandi til sjós og lands. Sjómannaafsláttur á skatti er tímaskekkja. 

Ég veit að þú ert sjómaður og alls góðs maklegur en það gefur þér engin forréttindi fram yfir mig eða aðra landsmenn.  Við rekum hérna kapítalístiskt nútíma þjóðfélag og grundvöllur sáttar í því er að allir skili sínu og og greiði fyrir aðgang að auðlindum til réttmætra eigenda sem er þjóðin.

Gísli Ingvarsson, 23.1.2010 kl. 17:06

2 Smámynd:  Grétar Rögnvarsson

Veit nú ekki betur en hagsmunasamtök og klíkur hafi haft völdin í þessu landi sé ekkert  sem mælir á móti því að sjómenn og útgerðarmenn vinni saman að sínum hagsmunamálum.

Veit nú ekki hvað þú ert gamall en þú hlýtur að tala af reynslu þegar þú berð saman sjómennsku í dag og svo á síldarárunum.

Rétt hjá þér sjómannstarfið hefur alltaf verið verkamannastarf þó svo að aðbúnaður til sjós hafi breyst til muna skil nú samt ekki rök þín þá fyrir sjómannafslættinum ef starfið er svona hræðilegt, alveg er mér sama þó að hann hverfi enda er þessi afsláttur ekki svo hár að hann geri gæfumun hjá venjulegum manni, þú kannski veist hvað hann er hár eða hvað? Hann er 900 kr á dag þegar þú ert lögskráður er það ekki sama og sígarettupakki kostar. En svona ef þú veist ekki er hann mun hærri á hinum Norðurlöndunum og á Grænlandi en hjá okkur.

Það er enginn að tala um það að þjóðin eigi eitthvað inni hjá okkur frekar en öðru vinnandi fólki, en ef þú heldur að það sé einhver lausn að fara að taka veiðiheimildir af þeim sem þær  hafa og byggt hafa upp sín fyrirtæki út frá því ertu á rangri braut. Legg til að þú reynir að komast í útgerð í dag eða eftir 10 ár þegar búið verður kannski að kalla inn 50% af veiðiheimildum, held að þú komir að jafn lokuðum dyrum í dag eða eftir 10 ár.

Grétar Rögnvarsson, 25.1.2010 kl. 14:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Grétar Rögnvarsson
 Grétar Rögnvarsson
skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU-111, frá Eskifirði

248 dagar til jóla

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband